Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi

Association of Icelandic Mountain Guides

Um félagið

Stofnun AIMG má rekja til kynningarfundar í desember 2012 sem sóttur var af 30 gestum. M.a. var á fundinum rakinn tilgangur og markmið félagsins en þau eru:

• Að verja almannahag með því að stuðla að fagmennsku og öryggi í fjallaleiðsögn og tengdum greinum á Íslandi.

• Að halda uppi menntunar- og starfsréttinda kerfi fyrir fjallaleiðsögn og tengdar greinar.

• Að verja hagsmuni þeirra sem starfa við fjallaleiðsögn og tengdar greinar á Íslandi ásamt því að stuðla að öryggi og fagmennsku.

• Að vekja vitund meðal almennings um félagið og mikilvægi fagmennsku í fjallaleiðsögn.

Forvinna undirbúningshóps

Undirbúningshópurinn starfaði frá í september 2012 og hafði með höndum að semja lög félagins, undirbúa þjálfunarkerfið ásamt því að halda kynningar og fleira. Af hálfu AIMG er lögð áhersla á þá stöðu félagsins að það er fagfélag með því að eingöngu þeir sem búa yfir formlegri þjálfun geti orðið félagar. Ekki er um að ræða stéttarfélag, sem eru lögum samkvæmt öllum opin.
Undirbúningshópurinn starfaði fram til aðalfundar félagsins í júní 2013 og var þá kosin ný stjórn ásamt formanni.

Í stofnsamþykktum félagsins kemur fram að þeir einir sem lokið hafa einhverju stigi þjálfunarkerfisins eða hafa verið metnir inn í kerfið, geti sótt um aðild. Þeir sem ekki búa yfir formlegri þjálfun en hafa reynslu í jökla- eða fjallaleiðsögn hafa kost á að vera boðið til fundar og láta meta sig inn í kerfið að loknu umsóknarferli.