Þjálfun og réttindi

Jöklaleiðsögn

Fjallaleiðsögn

Skíðaleiðsögn

Heildarréttindi

Tillaga að þjálfunarkerfi fyrir jökla-, fjalla- og skíðaleiðsögn

Endurskoðuð útgáfa 12.12.2012

Þessi útgáfa er fjórða útgáfa undirbúningshóps Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG) á fyrra skjali frá vinnuhóp Ísl. Fjallaleiðsögumanna, Arctic Adventures og Ferðamálastofu. Athugið að þetta eru drög og villur gætu leynst í textanum. Þjálfunarkerfinu er skipt í þrjá hluta og undirþrep, þe. jökla-, fjalla- og skíðaleiðsögn. Hver hluti er sjálfstætt þjálfunarkerfi og tengjast sem heild með heildarréttindum.
Þriðji hluti kerfisins um Skíðaleiðsögn er nýr frá grunni og hefur ekki verið kenndur. Það er því líklegt að sá hluti eigi eftir að breytast meira en aðrir hlutar á næstunni.
Kerfið fyrir þessa þrjá hluta byggist á grunnnámskeiði og tveimur námsskeiðum með prófum, fyrsta og öðru stigi. Formleg nöfn á öllum þessum þrepum eru til skoðunar og eru númeruð 1 til 3 til einföldunar.
Námsskrá félagsins er í undirbúningi og mun væntanlega taka mið af alþjóðlegum stöðlum í samræmi við stefnu félagsins.

Fyrsti hluti

Leiðsögn á skriðjöklum

1.1 Jöklaleiðsögn 1 (Grunnnámskeið)

Lýsing

Grunnnámskeiðið í jöklaleiðsögn tekur fjóra daga og fer fram á skriðjökli. Þetta námskeið er ætlað nýliðum í jöklaleiðsögn. Farið er yfir helstu atriðið í jöklaleiðsögn, s.s. leiðarval, sprungubjörgun, ísklifur, fjallavit, skráning í log-bækur, samskipti við gesti og hópstjórnun. Björgunaræfing er einnig hluti af námskeiðinu.

Forkröfur

Gerð er krafa um grunnþekkingu á fjallamennsku og línuvinnu. Þessi grunnþekking getur verið í formi menntunar frá leiðsöguskólum, nýliðaþjálfunar björgunarsveita, Björgunarskóla Slysavarnafélags Landsbjargar eða viðurkenndra einkaaðila* í fjallamennsku og ferðamennsku á jöklum.

Nemendur verða að hafa gilt skyndihjálparskírteini t.d fyrsta hjálp 1 og 2 eða sbrl.(40 klst).

*Fyrirtæki sem yfir hafa að ráða Fjallaleiðsögumanni og Jöklaleiðsögumanni.

Mat

Geta nemenda í helstu áhersluatriðum skv. námsskrá félagsins er metin meðan á námskeiðinu stendur. Á síðasta degi fer fram mat þar sem nemendur þurfa að leysa björgunarverkefni.

Réttindi

Námskeiðið veitir rétt til að starfa á jökli undir beinni og óbeinni leiðsögn.* Fyrstu 10 dagar í vinnu hvers starfsmanns eiga að vera undir beinni leiðsögn sem aðstoðarleiðsögumaður.

*Bein leiðsögn – annar reyndari leiðsögumaður í sömu ferð. Óbein leiðsögn – annar reyndari leiðsögumaður frá sama fyrirtæki á sama svæði/jökli.

Kennsla

Námskeiðið fer fram á skriðjökli. Miða skal við að hlutfall nemenda og leiðbeinanda sé 6:1.

Æskilegt er tveir leiðbeinendur séu við kennslu og skiptast á að vera með hópana. Hvert námskeið er leitt af Fjallaleiðsögumanni sem einnig er reyndur Jöklaleiðsögumaður en aðrir leiðbeinendur eru að lágmarki reyndir Jöklaleiðsögumenn.

Hvert fyrirtæki fyrir sig getur haldið jöklaleiðsögn1uppfylli leiðbeinendur á því þær kröfur sem gerðar eru til þeirra um menntun og reynslu.

1.2 Jöklaleiðsögn 2 (Level I)

Lýsing

Jöklaleiðsögn 2er kennsla/mat sem tekur þrjá og hálfan dag. Prófað er í helstu atriðum jöklaleiðsagnar og viðbragða við slysum. Prófið fer fram á skriðjökli. Farið er yfir helstu atriðið í jöklaleiðsögn, s.s. leiðarval, sprungubjörgun, ísklifur, fjallavit, samskipti við gesti og hópstjórnun. Ætlast er til að nemendur sýni starfshæfni í þeim atriðum sem kynnt voru á jöklaleiðsögn 1.

Forkröfur

Gerð er krafa um að nemendur hafi 30 daga starfsreynslu í leiðsögn á skriðjöklum. Starfsreynslu ber að skrá og hún skal vera vottuð af yfirleiðsögumanni viðkomandi fyrirtækis. Enn fremur er gert ráð fyrir að nemendur hafi lokið Jöklaleiðögn 1. Nemendur verða að hafa gilt Vettvangshjálp í óbyggðum(WFR ) skírteini eða sbrl. réttindi.

Mat

Námskeiðið er kennsla/stöðumat skv. námsskrá félagsins. Mat á hæfni nemenda fer fram á meðan námskeiði stendur. Lagt er mat á færni í öllum þáttum jöklaleiðsagnar, svo sem samskiptum við gesti, leiðarval, kennsluhæfni, þekkingu á jöklum, sögu o.þ.h., sprungubjörgun, línuvinnu og fjallaviti auk þess sem kunnátta í björgunaraðgerðum er metin.

Réttindi

Að loknu námskeiði fá nemendur umsögn um eigin frammistöðu auk tillagna að mögulegum úrbótum. Þeir sem ljúka Jöklaleiðsögn 2 með jákvæða umsögn eiga að vera færir um að leiðsegja í öllum hefðbundnum jöklaferðum sem og í ísklifurverkefnum á jöklum að sumri til. Námskeiðið veitir réttindi til að starfa undir óbeinni leiðsögn reyndari Jöklaleiðsögumanna að sumri til og beinni leiðsögn að vetri til.

*Vetur miðast við 1. nóvember til 1. maí.

Kennsla

Matið fer fram á skriðjökli og miða skal við að hlutfall nemenda og leiðbeinanda sé 4:1. Einungis reyndur Fjallaleiðsögumaður sem einnig hefur lokið Jöklaleiðsögumanna prófi er hæfur til að kenna á Jöklaleiðsögn 2 . Æskilegt er að leiðbeinendur séu tveir og að hlutfallið sé að hámarki 8:2.

1.3 Jöklaleiðsögn 3 – Jöklaleiðsögumaður (Level II)

Lýsing

Jöklaleiðsögn 3 er fullnaðarpróf fyrir þá sem vinna á skriðjöklum og tekur 3 1⁄2 dag. Metin eru sömu atriði og í Jöklaleiðsögn 2 en kröfur um frammistöðu eru umtalsvert stífari, sett eru skilyrði um að lágmarkskröfum sé náð til að standast prófið.

Forkröfur

Nemendur verða að hafa lokið Jöklaleiðsögn 2 og hafa að auki samtals 70 daga starfsreynslu sem er skráð og vottuð af yfirleiðsögumanni viðkomandi fyrirtækis. Nemendur verða einnig að hafa gilt Vettvangshjálp í óbyggðum(WFR) eða sambærileg réttindi. Leyfilegt er að sækja um undanþágu frá Jöklaleiðsögn 2 (Level 1) geti umsækjandi sýnt fram á sambærilega reynslu og/eða menntun.

Mat

Lagt er mat á færni nemenda skv. námskrá félagsins, í samskiptum við gesti, leiðarval, kennsluhæfni, sprungubjörgun, fjallavit og línuvinnu auk þess sem kunnátta í björgunaraðgerðum er metin. Matið fer fram á sama hátt og í Jöklaleiðsögn 2 nema hvað kröfur um frammistöðu, færni og fumlaus vinnubrögð eru umtalsvert meiri.

Réttindi

Þeir sem standast prófið fá titilinn Jöklaleiðsögumaður AIMG. Þeir eru færir til að vinna alla þá vinnu sem framkvæmd er á skriðjöklum í íslenskri ferðaþjónustu jafnt sumar sem vetur og undir merkjum félagsins.

Jöklaleiðsögumaður hefur einnig rétt til að reka fyrirtæki sem býður upp á ferðir á skriðjökla á Íslandi eða vera fulltrúi rekstraraðila sem bjóða upp á slíkar ferðir. Jöklaleiðsögumaður sem hefur að lágmarki 100 daga starfsreynslu sem slíkur hefur einnig rétt til að vera aðstoðarkennari á jöklaleiðsögn 1. Jöklaleiðsögumenn skulu ávallt hafa gilt Vettvangshjálp í óbyggðum(WFR) skírteini eða sbrl. menntun til að viðhalda réttindum sínum.

Kennsla

Námskeiðið fer fram á skriðjökli og miða skal við að hlutfall nemenda og leiðbeinanda sé 4:1 og að hámarki 8:2. Einungis Fjallaleiðsögumaður IFMGA og Fjallaleiðsögumaður AIMG sem einnig hefur lokið Jöklaleiðsögumanna prófi og hefur reynslu* af leiðsögn á skriðjöklum eru hæfir til að kenna á Jöklaleiðsögn 3. Jöklaleiðsögn 3 skal vera haldið af Félagi fjallaleiðsögumanna á Íslandi – AIMG.

*100 daga starfsreynsla sem Jöklaleiðsögumaður.

Annar hluti

Fjallaleiðsögn

2.1 Fjallaleiðsögn 1 (áður nefnt Hnjúkur II og Alpanámskeið)

Lýsing

Fjallaleiðsögn 1 er fimm daga námskeið ætlað tilvonandi Fjallaleiðsögumönnum.

Á námskeiðinu er kennt og metið skv. námskrá félagsins. Námskeiðið miðast við að undirbúa nemendur til að aðstoða reyndari Fjallaleiðsögumenn. Á námskeiðinu er m.a. farið í mat í rötun þar sem bæði er notast við GPS og áttavita. Félaga- og sjálfsbjörgun upp úr jökulsprungu fyrir ofan snjólínu. Notkun neyðarskýla. Björgunaræfingar og notkun björgunarbúnaðar. Verklegar æfingar í leiðsögn og fjallavit. Yfirferð neyðaráætlana, skipulag ferða og fyrirlestur um snjóflóð.

Forkröfur

Gerð er krafa um grunnþekkingu í fjallamennsku og línuvinnu. Þessi grunnþekking getur verið í formi menntunar frá leiðsöguskólum, nýliðaþjálfunar björgunarsveita, Björgunarskóla Slysavarnafélags Landsbjargar eða viðurkenndra einkaaðila*, í fjallamennsku og ferðamennsku á jöklum. Einnig þurfa nemendur að geta sýnt fram á ferðareynslu** í fjalllendi bæði vetur sem sumar. Nemendur verða að hafa gilt skyndihjálparskírteini t.d fyrsta hjálp 1 og 2 eða sbrl.(40 klst).

*Fyrirtæki sem yfir hafa að ráða Fjallaleiðsögumanni. **Senda inn lista með 10 fjallaferðum og þurfa 5 af þeim að hafa verið á jökli.

Mat

Til að standast námskeiðið þurfa nemendur að að þeir séu færir um að ferðast í brattlendi og á jöklum sumar sem vetur. Þeir skulu einnig vera færir um að bjarga sjálfum sér og öðrum upp úr snævi þaktri jökulsprungu á sannfærandi hátt. Þeir þurfa að sýna fram á hæfni í fjallamennsku með fumlausum vinnubrögðum, sýna fjallavit og færni í rötun með notkun GPS, korta og áttavita.

Réttindi

Þeir sem standast Fjallaleiðsögn 1 teljast hæfir til að aðstoða Fjallaleiðsögumenn á íslenskum fjöllum, undir beinni leiðsögn. Þetta á við sumar sem vetur en þó einungis á tæknilega einföldum leiðum t.d. þar sem lína er einungis notuð vegna sprunguhættu.

Kennsla

Kennslan fer fram á skriðjöklum og á sprungnum hájöklum (fyrir ofan 1000m). Kennslan er framkvæmd af Fjallaleiðsögumanni með Jöklaleiðsögumanna próf og miða skal við að hlutfall nemenda og leiðbeinanda sé 6:1. Æskilegt er að leiðbeinendur séu tveir.

Hvert fyrirtæki fyrir sig getur haldið námskeiðið Fjallaleiðsögn 1 endauppfylli leiðbeinendur á því þær kröfur sem gerðar eru til þeirra um menntun og reynslu

2.2 Fjallaleiðsögn 2 (áður nefnt Mountain Skills Course)

Lýsing

Fjallaleiðsögn 2 er átta daga fjallamennskunámskeið þar sem nemendur eru þjálfaðir í að beita aðferðum fjallamennsku og klifurs í leiðsögn á faglegan hátt. Á námskeiðinu er kennt og metið skv. námskrá félagsins. Áhersla er lögð á þjálfun fyrir fjallaleiðsögumannaprófið þar sem aðferðir við fjallaleiðsögn eru kenndar, svo sem klifur með viðskiptavini, short-rope tækni og fjölspanna klifur. Einnig er allur undirbúningur og framkvæmd ferða tekin fyrir og lögð áhersla á vönduð vinnubrögð og fagmennsku.

Forkröfur

Almennar forkröfur eru að lágmarki 30 daga samanlögð reynsla af fjallamennsku og klifri sumar og vetur. Umsækjendur þurfa að hafa lokið Fjallaleiðsögn 1. Umsækjendur verða einnig að geta sýnt fram á eftirfarandi tæknilega færni:

 • Að vera færir um að kletta klifra í leiðslu 5.6 í dóti og 5.8 í boltum í klettaklifurskóm.
 • Að vera færir um að ísklifra WI3 í leiðslu og geta sigið niður á v-þræðingu.
 • Að hafa klifrað amk. eina fjölspanna alpaleið, t.d. NA-hrygg Skessuhorns eða Suðurhlíð Hrútsfjallstinda.
 • Að vera færir um að bjarga sjálfum sér og öðrum á skjótan og öruggan hátt upp úr snævi þaktri jökulsprungu.
 • Hafa reynslu af leiðsögn á auðveldari leiðum eins og Sandfellsleið á Hvannadalshnúk og/eða Hafrafellsleið á Hrútfjallstinda sem aðstoðarmenn.
 • Umsækjendur skulu hafa lokið WFR Vettvangshjálp í óbyggðum eða sbrl.

*Senda inn lista með 10 fjallaferðum sem leiðsögumaður og þar af 5 á hájökli (yfir 1000m)

Mat

Að loknu námskeiði er metið hvort nemendur séu færir um að halda áfram í Fjallaleiðsögn 3. Ef ekki er mælt með beinu framhaldi eru gefnar ráðleggingar um hvað megi betur fara og í hvaða þáttum nemendur ættu að vinna hyggist þeir reyna aftur.

Réttindi

Fjallaleiðsögn 2 er ekki próf. Námskeiðið er forsenda þess að fá að taka Fjallaleiðsögn 3 sem og að gefa nemendum persónulegt mat í færni. Þetta námskeið er enn fremur sá fjallamennsku grunnur sem krafist er fyrir þá sem hyggja á þjálfun í skíðaleiðsögn.

Þeir sem ljúka námskeiðinu með jákvæða umsögn mega leiðsegja undir óbeinni leiðsögn á tæknilega auðveldari leiðum eins og Sandfellsleið á Hvannadalshnjúk.

Kennsla

Miða skal við að hlutfall nemenda og leiðbeinanda sé 4:1 en aldrei færri en tveir leiðbeinendur. Námskeiðið er kennt af Fjallaleiðsögumönnum. Hvert fyrirtæki fyrir sig getur haldið Fjallaleiðsögn 2 enda uppfylli leiðbeinendur á því þær kröfur sem gerðar eru til þeirra um menntun og reynslu.

2.3 Fjallaleiðsögn 3 – Fjallaleiðsögumaður(áður nefnt Alpine Trekking Guide)

Lýsing

Fjallaleiðsögn 3 er átta daga próf þar sem nemendur eru metnir í færni sinni sem leiðsögumenn í erfiðu fjalllendi og á jöklum. Prófið tekur til allra þátta fjallaleiðsagnar og gerir kröfu um færni í klifri. Mikil áhersla er lögð á tæknilega þekkingu, línuvinnu, hraða, áhættustjórnun og fjallavit. Á námskeiðinu er kennt og metið skv. námskrá félagsins.

Forkröfur

Einungis þeir sem hafa fengið jákvæða umsögn úr Fjallaleiðsögn 2 geta tekið Fjallaleiðsögn 3. Að auki þurfa þeir að uppfylla eftirfarandi tæknilegar kröfur:

 • Að vera færir um að klifra í leiðslu klettaleiðir að lágmarki 5.10 í boltum og 5.8 í dóti í klettaklifurskóm.
 • Að hafa ísklifrað að lágmarki 15 ísleiðir þar af 8 fjölspanna og þar af amk. 3 þar sem sigið er niður úr leiðunum. Af þessum 15 eiga 8 að vera að lágmarki WI4.
 • Að hafa klifrað þrjár fjölspanna alpaleiðir, eins og einhverja N-veggja Skarðsheiðar, S-hlíðar Hrútfjallstinda, austurvegg Skarðatinda eða klettaleiðum eins og Kerlingareldi. Sambærilegar leiðir erlendis eru einnig teknar gildar.
 • Að hafa lokið CAA level 1 eða sbrl. 7 daga námskeiði í mati á snjóflóðahættu

og námskeiðinu WFR Vettvangshjálp í óbyggðum eða sambærilegu.

 • Umsækjendur skulu hafa lokið Jöklaleiðsögn 3.

Mat

Nemendur eru metnir í öllum þáttum fjallamennsku, samskiptum við gesti, áhættustýringu, eigin hæfni, kunnáttu í björgun, fjallavit, staðar- og veðurþekkingu auk annarra þátta sem skipta máli í leiðsögn í fjalllendi.

Réttindi

Þeir sem ljúka prófinu fá titilinn Fjallaleiðsögumaður AIMG og hafa rétt til að vinna við alla fjallaleiðsögn sem eru í boði í íslenskri ferðaþjónustu undir merkjum félagsins. Fjallaleiðsögumaður hefur einnig rétt til að reka fyrirtæki sem býður upp á ferðir á fjöll á Íslandi eða vera fulltrúi rekstraraðila sem bjóða upp á slíkar ferðir.

Kennsla

Prófið er einungis kennt af IFMGA* leiðsögumanni og Fjallaleiðsögumanni. Miða skal við að hlutfall nemenda og leiðbeinanda sé 4:1 en aldrei færri en tveir leiðbeinendur. Prófið skal fara fram á Íslandi í fjallendi sem endurspeglar starfsaðstæður fjallaleiðsögumanna. Fjallaleiðsögn 3 skal vera haldið af Félagi fjallaleiðsögumanna á Íslandi – AIMG.

Þriðji hluti

Skíðaleiðsögn

3.1 Skíðaleiðsögn 1

Lýsing

Skíðaleiðsögn 1 er 5 daga námskeið ætlað tilvonandi skíðaleiðsögumönnum. Á námskeiðinu er kennt og metið skv. námskrá félagsins.Á námskeiðinu er lögð áhersla á að meta skíðafærni þátttakenda og kenna helstu þætti skíðaleiðsagnar í fjallendi.

Forkröfur

 • Umsækjendur skulu hafa fengið jákvæða umsögn úr Fjallaleiðsögn 1.
 • Hafa lokið 4 daga fagnámskeiði í mati á snjóflóðahættu frá Björgunarskólanum eða sbrl. snjóflóðanámi.
 • Hafa gilt WFR Vettvangshjálp í óbyggðum skírteini.
 • Umsækjendur skulu hafa að lágmarki 100 daga skíðareynslu utanbrauta í ólíkum snjóalögum og árferði.
 • Skrá 10 fjallaskíðaferðir á eigin vegum.
 • Geta skíðað af öryggi í öllum snjóalögum í krefjandi aðstæðum.

Mat

Nemendur eru m.a. metnir í skíðafærni, leiðarvali, staðar- og veðurþekkingu, hópstjórnun, áhættustýringu, sprungubjörgun, mati á snjóflóðahættu, ýlaleit og kennslu ásamt öðrum þáttum skíðaleiðsagnar. Að loknu námskeiði er metið hvort nemendur séu færir til að halda áfram á Skíðaleiðsögn2.

Réttindi

Þeir sem fá jákvæða umsögn á námskeiðinu geta haldið áfram á Skíðaleiðsögn 2 og mega aðstoða Skíðaleiðsögumenn við störf.

Kennsla

Kennsla fer fram innan sem utan skíðasvæða í bröttu fjallendi. Kennslan er framkvæmd af Skíðaleiðsögumanni og miða skal við að hlutfall nemenda og leiðbeinenda sé 6:1 og æskilegt er að leiðbeinendur séu tveir.

3.2 Skíðaleiðsögn 2

Lýsing

Skíðaleiðsögn 2 er átta daga námskeið í leiðsögn á fjallaskíðum og ætlað tilvonandi skíðaleiðsögumönnum. Á námskeiðinu eru nemendur þjálfaðir í að beita aðferðum skíðafjallamennsku í leiðsögn á faglegan hátt í fjallendi og á jöklum. Á námskeiðinu er kennt og metið skv. námskrá félagsins.

Áhersla er lögð á þjálfun fyrir Skíðaleiðsögn 3 þar sem aðferðir við skíðaleiðsögn eru kenndar, svo sem rötun með áttavita og GPS, leiðarvali, áhættumati á snjóflóðasvæðum, kennslu á viðbrögðum við snjóflóðum, fjallavit og samskiptum við viðskiptavini.

Forkröfur

 • Nemendur þurfa að hafa lokið Skíðaleiðsögn 1 með jákvæðri umsögn.
 • Að hafa lokið CAA level 1 eða sbrl. 7 daga námskeiði í mati á snjóflóðahættu og námskeiðinu WFR Vettvangshjálp í óbyggðum eða sambærilegu.
 • Nemendur þurfa að vera hæfir um að vera sjálfbjarga hvort sem er á fjallaskíðum eða gönguskíðum í fjalllendi og hálendi Íslands.

Nemendur þurfa einnig að skila inn log-bókar færslum fyrir:

Fjallaskíðun

 • 25x dagar á fjallaskíðum utan skíðasvæða
 • 5x dagar fjallaskíðun á jöklum, td. Svínafellsjökulsleið og Eyjafjallajökull.
 • 2x leiðangrar 2 nætur eða fleiri hver í tjaldi.
 • 4x leiðangar 2 nætur eða fleiri út frá skála.

Gönguskíðun.

 • 2x ferðir 3 dagar eða fleiri út frá skála eða tjaldi.
 • 1x 7 daga ferð í skála eða tjaldi td. yfir Sprengisand, Kjöl eða Vatnajökul.

Mat

Nemendur eru metnir í öllum þáttum skíðafjallamennsku, skíðafærni, samskiptum viðgesti,

áhættustýringu, sprungubjörgun, ýlapróf, fjallaviti, staðar- og veðurþekkingu auk annarra þátta sem skipta máli í skíðaleiðsögn í fjalllendi og á jöklum.

Að loknu námskeiði er metið hvort nemendur séu færir um að halda áfram í Skíðaleiðsögn 3. Ef ekki er mælt með beinu framhaldi eru gefnar ráðleggingar um hvað megi betur fara og í hvaða þáttum nemendur ættu að vinna hyggist þeir reyna aftur.

Réttindi

Skíðaleiðsögn 2 veitir réttindi til að starfa undir beinni og óbeinni leiðsögn Skíðaleiðsögumanna.

Kennsla

Kennsla fer fram innan sem utan skíðasvæða í bröttu fjallendi. Kennslan er framkvæmd af Skíðaleiðsögumanni og miða skal við að hlutfall nemenda og leiðbeinenda sé 6:1 og æskilegt er að leiðbeinendur séu tveir. Hvert fyrirtæki fyrir sig getur haldið Skíðaleiðsögn 2 enda uppfylli leiðbeinendur á því þær kröfur sem gerðar eru til þeirra um menntun og reynslu.

3.3 Skíðaleiðsögn 3 – Skíðaleiðsögumaður

Lýsing

Skíðaleiðsögn 3 er átta daga próf í leiðsögn á fjallaskíðum. Prófið er ætlað verðandi Skíðaleiðsögumönnum. Nemendur eru metnir í færni sinni sem skíðaleiðsögumenn í erfiðu fjalllendi og á jöklum. Á námskeiðinu er kennt og metið skv. námskrá félagsins.

Áhersla er lögð á fagleg vinnubrögð í öllum þáttum skíðafjallamennsku, skíðafærni, samskiptum viðgesti, áhættu mati á snjóflóðasvæðum, sprungubjörgun, fjallaviti, staðar- og veðurþekkingu, skipulagi ferða og góðu flæði bæði í kennslu og leiðsögn.Prófið tekur að mestu mið af fjallaskíðun og kemur inná skíðun með aðstoð vélknúinna tækja.

Forkröfur

 • Að hafa lokið Skíðaleiðsögn 2.
 • Að hafa lokið CAA level 1 eða sbrl. 7 daga námskeiði í mati á snjóflóðahættu og námskeiðinu WFR Vettvangshjálp í óbyggðum eða sambærilegu.
 • Að hafa unnið sem aðstoðarmaður Skíðaleiðsögumanns að lágmarki 10 daga í fjallaskíðun. Athugasemd: Þessi dagafjöldi mun aukast í 20 þegar fleiri fá réttindin.

Mat

Nemendur eru metnir í öllum þáttum fjallaskíðamennsku og nemendur þurfa að vera afburða góðir skíðamenn sem geti skíðað af öryggi í öllum snjóalögum og miklum bratta (45-50°). Nemendur þurfa einnig að sýna fumlaus vinnubrögð við framkvæmd ferða og búa yfir áreynslulitlum skíðastíl.

Réttindi

Þeir sem ljúka prófinu fá titilinn Skíðaleiðsögumaður AIMG og hafa rétt til að vinna við alla skíðaleiðsögn og skíðaleiðangra sem eru í boði í íslenskri ferðaþjónustu undir merkjum félagsins. Skíðaleiðsögumaðurhefur einnig rétt til að reka fyrirtæki sem býður upp á skíðaferðir á fjöll á Íslandi eða vera fulltrúi rekstraraðila sem bjóða upp á slíkar ferðir.

Kennsla

Prófið er einungis kennt af IFMGA* leiðsögumanni og Skíðaleiðsögumanni AIMG. Miða skal við að hlutfall nemenda og leiðbeinanda sé 4:1 en aldrei færri en tveir leiðbeinendur. Prófið skal fara fram á Íslandi í fjallendi sem endurspeglar starfsaðstæður Skíðaleiðsögumanna. Skíðaleiðsögn 3 skal vera haldið af Félagi fjallaleiðsögumanna á Íslandi – AIMG.

*IFMGA – International Federation of Mountain Guide Associations

Fjórði hluti

Heildarréttindi AIMG

Þeir sem ljúka öllu þjálfunarkerfi AIMG munu fá heildarréttindi að erlendri fyrirmynd sambærilegra samtaka í fjallaleiðsögn. Mikið hefur verið rætt hvort nota eigi starfsheitið Fjallaleiðsögumaður fyrir heildarréttindin, en það er háð því að gott viðeigandi nafn finnst á núverandi þjálfunarkerfi í fjallaleiðsögn. Þessi hluti er nýr og á eftir að ræða og móta frekar.