Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi

Association of Icelandic Mountain Guides

Lög félagsins

Association Charter

1. gr. Um félagið

Félagið heitir Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi, eða Association of Icelandic Mountain Guides og er skammstafað AIMG. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur félagsins er:
§  Að verja almannaheill með því að stuðla að fagmennsku og öryggi í fjallaleiðsögn og tengdum greinum á Íslandi.

§  Að halda uppi menntunar og starfsréttindakerfi fyrir fjallaleiðsögn og tengdar greinar.

§  Að verja hagsmuni félagsmanna sem starfa við fjallaleiðsögn og tengdar greinar á Íslandi ásamt því að stuðla að öryggi og fagmennsku við fjallaleiðsögn á Íslandi.

§  Að vekja vitund meðal almennings um félagið og mikilvægi fagmennsku í fjallaleiðsögn.

3. gr. Félagsaðild

Félagar geta þeir einir orðið sem náð hafa 18 ára aldri og hafa staðist próf félagsins til starfsréttinda í sinni grein. Stjórn félagsins er heimilt að veita þeim aðild sem hafa sambærileg réttindi annarsstaðar frá, enda uppfylli þau kröfur félagsins um menntun og reynslu samkvæmt námskrá félagsins. Atkvæðisbærir og kjörgengir eru þeir einir sem greitt hafa árgjald yfirstandandi starfsárs fyrir upphaf aðalfundar og hafa lokið öðru stigi eða hærra í einni eða fleiri greinum þjálfunarkerfis félagsins.

4 .gr. Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skipa sjö félagsmenn sem kosnir eru á aðalfundi. Í stjórninni sitja formaður og sex meðstjórnendur. Kosið er um formann sérstaklega, en stjórn skipar sér gjaldkera og ritara, sem jafnframt er varaformaður, til eins árs. Stjórn getur skipað nefndir eftir þörfum.

Kjörtímabil stjórnar er eitt ár. Stjórnarmenn sem ganga úr stjórn geta boðið sig fram til áframhaldandi setu.

Formaður skal ekki sitja lengur en sex ár samfellt. Formaður ritar firma félagsins. Formaður og gjaldkeri rita prókúru félagsins.

Stjórn skal halda fundi að lágmarki sex sinnum á ári. Stjórnarfundir eru bærir til þess að taka ákvarðanir í samræmi við lög félagsins ef fimm stjórnarmenn eru viðstaddir. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns.

Innan félagsins skal starfa ráðgefandi nefnd atvinnurekenda á starfsviði félagsins sem kemur óskum atvinnurekenda á framfæri við stjórn félagsins.

5. gr. Aðalfundur

Starfstímabil félagsins er almanaks árið og skal aðalfundur haldinn frá tímabilinu 15.09 til 30.11 ár hvert. Aðalfundur hefur æðsta vald í málum félagsins. Til hans skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara. Telst fundur löglegur sé hann auglýstur með sendingu fundarboðs í tölvupósti til skráðra félagsmanna skv. félagatali. Á fundinum gilda almenn fundarsköp og ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála.

Uppgjörstímabil miðast við aðalfund og skal vera frá tímabilinu 01.09 til 31.08, árið eftir.

Verkefni aðalfundar eru:

1.       Kosning fundarstjóra sem síðan skipar fundarritara.
2.      Skýrsla stjórnar.
3.      Ársreikningar lagðir fram til samþykktar, undirritaðir af tveimur skoðunarmönnum.
4.      Lagabreytingar.
5.      Kjör formanns og meðstjórnenda.
6.      Kjör uppstillingarnefndar.
7.      Kjör tveggja skoðunarmanna ársreikninga.
8.     Ákvörðun árgjalds næsta árs.
9.      Önnur mál.

Atkvæðisbærir félagsmenn geta veitt öðrum félagsmönnum umboð til atkvæðagreiðslu í sínu nafni. Skal umboðið vera skriflegt og berast formanni uppstillingarnefndar í upphafi fundar. Enginn getur þó farið með umboð fleiri en eins manns. Umboð til atkvæðagreiðslu gildir einungis til greiðslu atkvæðis um þau málefni sem kynnt voru félagsmönnum með réttmætum hætti minnst viku fyrir aðalfund.

6. gr. Framboð og uppstillinganefnd

Uppstillingarnefnd skal vera skipuð þremur mönnum sem kosnir eru á aðalfundi og skal kjósa formann hennar sérstaklega. Uppstillingarnefnd skal sjá til þess að framboð berist í allar lausar stöður og sjá um framkvæmd kosninga. Uppstillingarnefnd skal auglýsa eftir framboðum í stjórn. Einungis félagsmönnum sem skuldlausir eru við félagið er
heimilt að bjóða sig fram til stjórnar.

Uppstillingarnefnd skal gera tillögu að stjórn félagsins. Við uppstillingu stjórnar skal uppstillingarnefnd leitast við stjórnin sé uppbyggð til að tryggja sjónarmið félagsmanna og skal leitast við að meirihluti stjórnarmanna sé ekki við störf hjá sama atvinnuveitanda. Einnig skal horfa til kynjasjónarmiða við uppstillingu stjórnar. Ef tillaga uppstillingarnefndar er hafnað á aðalfundi skal fara fram persónukjör til stjórnar. Uppstillingarnefnd skal stuðla að eðlilegri endurnýjun á stjórn.

Uppstillingarnefnd skal fara eftir verklagsreglum sem samþykktar eru á félagsfundi.

Framboð til stjórnar félagsins þurfa að hafa borist uppstillingarnefnd minnst 10 dögum fyrir auglýstan aðalfund og vera kynntar félagsmönnum með birtingu í fundarboði. Berist ekki framboð í öll laus embætti geta kjörgengir félagsmenn boðið sig fram í lausar stöður á aðalfundi.

7. gr. Árgjald

Árgjald félagsins skal innheimt í janúar ár hvert fyrir komandi starfsár og skal upphæð þess ákveðin á aðalfundi.

8. gr. Lagabreytingar

Lagabreytingartillögur skal leggja fyrir aðalfund til samþykktar eða synjunar.

Tillögur að lagabreytingum þurfa að hafa borist stjórn minnst 10 dögum fyrir auglýstan aðalfund og vera kynntar félagsmönnum með birtingu í öðru fundarboði. Samþykktar lagabreytingar skal birta á heimasíðu félagsins eins fljótt eftir aðalfund og kostur er og taka þær þá gildi um leið.

9. gr. Slit félagsins

Eigi má slíta félaginu nema það sé samþykkt á tveimur félagsfundum sem boðað er til á sama hátt og til aðalfundar og haldnir eru með minnst mánaðar millibili enda hafi fundarefnis verið getið í fundarboði.

Sé félaginu slitið og starfsemi þess hætt, skulu allar eignir þess, lausa- og fastafjármunir fengnir Íslenska Alpaklúbbnum (Ísalp) til vörslu og umsjónar þar til félagið verður endurvakið eða annað félag með sama markmiði stofnað. Skal Ísalp fá hinu nýja félagi eignirnar í hendur er það óskar þess.

Lög þessi voru samþykkt á auka-aðalfundi félagsins 26. nóvember 2020 og öðlast gildi nú þegar.